Hin árvissa Garðfuglahelgi Fuglaverndar verður haldin um næstu helgi 29. janúar til 1. febrúar.
Þá eru fuglavinir hvattir til að skrá fugla sem líta við í garðinn í eina klukkustund og senda
Fuglavernd talningartölurnar. Viðburðurinn stendur yfir frá og með föstudegi til mánudags og má velja þann dag sem best hentar á því tímabili.
Nú er hart í ári hjá mörgum fuglum sem þreyja þorrann hérna með okkur og eru fuglavinir hvattir til að gauka að þeim fóðri og fersku vatni reglulega.
Fyrir áhugasama býður Fuglavernd upp á streymisviðburð á Zoom á fimmtudaginn kl. 17 þar sem farið er yfir framkvæmd talningar og skráningar. Finna má nánari upplýsingar um
viðburðinn á Facebook síðu Fuglaverndar og á vefsíðu Fuglaverndar. Einnig má finna þar gagnlegar upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra.
Fuglavernd eru frjáls félagasamtök sem vinna að verndun fugla og búsvæða þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að alþjóðlegu fuglaverndarsamtökunum BirdLife International sem á félaga í 120 löndum.