Mesti sólmyrkvi sem sjáanlegur hefur verið á Íslandi í rúm sextíu ár verður að morgni dags 20. mars næstkomandi. Þá mun tunglið myrkva allt að 98% af skífu sólar á Suðurlandi.
Myrkvinn er svonefndur deildarmyrkvi en þá skyggir tunglið á hluta sólarinnar. Til að auka enn á sjónarspilið þá ætti að vera hægt að sjá reikistjörnuna Venus í austri, vinstra megin við sólina, þegar myrkvinn er í hámarki.
Í tilefni af þessum mun Hótel Rangá ásamt Stjörnufræðivefnum og Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness gefa öllum grunnskólabörnum landsins sérstök sólmyrkvagleraugu til að þau geti horft beint á sólmyrkvann án þess að skaða í sér augun.
Sólmyrkvagleraugun verða einnig til sölu fyrir áhugasama þegar nær dregur sólmyrkvanum og mun ágóðinn af sölunni renna til þess að greiða fyrir gjöfina.