Hljómlistarfélag Hveragerðis hefur sent frá sér nýtt jólalag. Lagið heitir Heim fyrir jól og er flutt af Bessa Th. og HFH (Hljómlistarfélagi Hveragerðis).
Lagið er dillandi skemmtilegt og textinn líka, enda er verkinu ætlað að létta lund þeirra sem hlýða, sem er vel við hæfi nú í jólamánuðinum. Lagið er tekið upp og hljóðblandað hjá Pétri Hjaltested í Hljóðsmiðjunni Hveragerði.
Hljómlistarfélagið hefur það að meginmarkmiði að láta gott af sér leiða í sínu litla samfélagi, Hveragerði og nærsveitum. Þessvegna hafa formenn félagsins ákveðið að allur ágóði af sölu lagsins renni til nokkurra einstaklinga Hveragerði sem glíma við erfið veikindi. Þetta eru þær Viktoría Sif Kristinsdóttir, Telma Dís og Viktoría Sól Jónsdóttir.
Þeir sem vilja kaupa lagið og styrkja um leið gott málefni geta lagt að minnsta kosti 500 krónur inn á reikning félagsins 0516-04-760358 kt. 150556-7169. Það eina sem þarf að gera er að skrifa netfang sem skýringu fyrir innlegginu og þá kemur lagið brunandi í tölvupósti í allri sinni dýrð.
Þeir sem hafa ekki aðgang að heimabanka geta farið í útibú Arionbanka í Hveragerði og lagt inn á reikning Hljómlistarfélagsins. Formenn félagsins senda þá viðkomandi geisladisk með laginu.