Sl. mánudag voru 100 skammtar af geithafrasæði fluttir út til Bandaríkjanna á vegum Sauðfjársæðingastöðvar Suðurlands.
Sæðið var tekið í fyrrahaust en þá fékkst leyfi dýralæknayfirvalda til þess að flytja geithafra í gömlu nautastöðina á Hvanneyri til sæðistöku. Það var Erfðalindasetur Landbúnaðarháskólans sem stóð fyrir sæðistökunni með tilstyrk Erfðanefndar landbúnaðarins.
Að sögn Guðmundar Jóhannessonar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands hafa bandarískir aðilar lengi haft áhuga á íslensku geitinni. Nú sé það orðinn raunveruleiki að íslenskt geithafrasæði sé komið til Bandaríkjanna en stöðin hefur í á annan áratug flutt hrútasæði þangað. Guðmundur segir að ef til vill verði þetta íslensku geitinni til bjargar því stofnstærðin hér sé hættulega lítil og stuðningur til þeirra sem halda íslenskar geitur sé einfaldlega alltof lítill.
Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir hafði veg og vanda af sæðistökunni sem var í umsjón Birnu Baldursdóttur hjá Erfðalindasetri LbhÍ.