Gengið frá Gráhellu – sveitarfélagið kaupir 20 rúma hektara

Sveitarfélagið Árborg, Íslandsbanki og Smíðandi ehf hafa náð samkomulagi um frágang gatna og umhverfis í Gráhelluhverfi á Selfossi sem áður var í eigu Suðurbyggðar ehf.

Framkvæmdir í hverfinu hafa verið stopp um nokkurn tíma þar sem áætlun um sölu lóða gekk ekki eftir vegna efnahagshrunsins.

Um tvo samninga er að ræða, annars vegar á milli dótturfélags Íslandsbanka, Gráhellu ehf, og Smíðanda ehf um að Smíðandi annist lokafrágang í hverfinu í samræmi við upphaflegan samning Suðurbyggðar ehf og Sveitarfélagsins Árborgar um uppbyggingu hverfisins.

Hins vegar er um að ræða samning milli Sveitarfélagsins Árborgar og dótturfélags Íslandsbanka, Gráhellu ehf, um að Sveitarfélagið Árborg kaupi af félaginu tvær landspildur sunnan Suðurhóla, Tjarnarlæk og Birkilæk, alls ríflega 20 hektara, auk þess sem sveitarfélagið eignast raðhúsalóð í hverfinu.

Kaupin taka gildi að framkvæmdum loknum í hverfinu, sem áætlað er að verði í október nk. Fyrir landið greiðir sveitarfélagið 60 milljónir króna.

Að auki mun sveitarfélagið taka við rekstri gatnakerfis og veitukerfa í hverfinu í samræmi við upphaflegan samning um uppbyggingu svæðisins.

Í tilkynningu frá Árborg segir að með þessum samningum sé mikilvægum áfanga náð og þakka aðilar málsins íbúum og lóðareigendum í hverfinu biðlund og skilning á stöðu málsins.

Fyrri greinBuster þefaði uppi amfetamín
Næsta greinEkkert sérstakt tiltektarátak fyrir Google