„Ef ég geng með hjólbörurnar eins og ég sé að hella úr þeim, þá fæ ég ekki verki í axlirnar,“ segir Hugi Garðarsson, 21 árs, sem ætlar að ganga hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélaginu í sumar.
Hugi lagði af stað í gær og gerir ráð fyrir að vera um 100 daga á leiðinni. Hann ætlar að heimsækja 70 sveitarfélög og ganga 3.000-3.500 kílómetra. Hann gengur með allt sitt dót í hjólbörum sem hann hefur búið hliðarspeglum og þverstöng til að auðvelda gönguna á þjóðvegum landsins.
Hugi starfaði um tveggja ára skeið sem landvörður á Þingvöllum og síðustu þrjá mánuði í Skaftafelli. Hann hefur áður gengið hringinn í kringum landið, en fjárfesti í hjólbörum á Akureyri og gekk með þær til Reykjavíkur.
„Það er miklu auðveldara að labba með hjólbörur ef maður lyftir þeim upp og allur þunginn hvílir á dekkinu. Með hjólbörum næ ég léttilega að ganga allt að 35 kílómetra á dag, en án þeirra eru það aðeins 20-25 kílómetrar.“
Vinsælt myndefni hjá ferðamönnum
Í hjólbörunum geymir Hugi allt sem hann þarf til ferðalagsins, tjald, svefnoka, matarbirgðir, bækur og gítar sem hann spilar á daglega.
Hugi segist oft vekja athygli með hjólbörurnar og alltaf sé einhver sem hægi á sér til að taka mynd, þótt hann hvetji fólk ekki til að hægja mikið á sér og skapa þannig hættu í umferðinni á þjóðvegum landsins.
Söfnunarsími 908-1001 fyrir 1.000 kr.
Hugi gengur til minningar um ömmu sína sem lést úr krabbameini árið 2014. „Lát hennar var okkur fjölskyldunni afar þungbært, sérstaklega afa mínum. Ég ætla að fara hringinn réttsælis, heimsækja um 70 bæjarfélög og hlakka til að kynnast landinu á göngunni um leið og ég legg góðum málstað lið,“ segir Hugi að lokum og hvetur alla til að hringja í söfnunarsímann því flestir þekki einhvern sem hefur glímt við krabbamein.
Hugi verður einn á ferð og hægt er að fylgjast með ferðum hans á facebook síðu göngunnar.