Verktakar sem unnu að endurbótum á Sandvíkursetri á Selfossi sendu í morgun frá sér yfirlýsingu þar sem þeir gera alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning af tafabótum vegna verksins.
Fréttir um milljón króna dagsektir á verktaka Sandvíkurseturs birtust á fréttavefnum dfs.is þann 4. febrúar síðastliðinn og í Dagskránni þann 7. febrúar.
„Alvarlegt er að verktakar fái fréttir um tafabætur í fjölmiðlum, áður en uppgjör verks hefur farið fram. Ekki er hægt að túlka það á annan veg en að verið sé að kasta rýrð á þá sem hlut eiga að máli. Einnig er það ámælisvert af fréttamanni að ekki hafi verið haft samband við verktaka við gerð fréttarinnar. Við undirritaðir gerum alvarlegar athugasendir við vinnubrögð sem þessi.“
Undir yfirlýsinguna skrifa Byggingafélagið Laski ehf, ÞH Blikk ehf, Málarinn ehf, Vélsmiðja Suðurlands ehf, Árvirkinn ehf og Lagnaþjónustan ehf.