Gerbreytt fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun Bláskógabyggðar er strax komin í uppnám vegna breytinga á framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Framlag sjóðsins lækkar um rúmar 11 milljónir króna.

Að sögn Valtýs Valtýssonar sveitarstjóra var við unnið með áætlaðar tölur frá Jöfnunarsjóði líkt og venja er þegar fjárhagsáætlun næsta árs var unnin. Gert var ráð fyrir rúmlega 115 milljóna kr. framlagi til Bláskógabyggðar en nú þegar árið er gert upp þá fær sveitarfélagið rúmlega 11 miljónum lægri upphæð í sinn hlut.

Þetta stafar að hluta til vegna uppgjörs annarra sveitarfélaga, segir Valtýr, sem orsakar að viðkomandi sveitarfélög fá hærra hlutfall úr heildarpottinum.

Að sögn Valtýs gerbreytir lægra framlag jöfnunarsjóðs nú forsendum fjárhagsáætlunarinnar, einkum lánsfjárþörf sveitarsjóðs vegna framkvæmda. Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun lá ekki fyrir hvað gera þyrfti ráð fyrir í fjárfestingum en vilji stóð til að komast hjá því að taka lán. Nú hefur hinsvegar verið ákveðið að Bláskógabyggð taki 40 miljónir króna framkvæmdalán. Stærstur hluti framkvæmda eru gatnaframkvæmdir.

Vinna við framkvæmdaáætlun ársins 2011 stendur enn yfir og á að leggja hana fyrir sveitarstjórn á næsta reglubundna fundi hennar. Er þar gert ráð fyrir nettó fjárfestingum á rekstrarárinu fyrir 47 milljónir króna, þar af eru áætlaðar framkvæmdir hjá Bláskógaveitu fyrir 17 milljónir.

Fyrri greinInnbrot í Vaðnesi upplýst
Næsta greinEfnilegir knattspyrnumenn