Blómabúðin Sjafnarblóm á Selfossi hefur verið sett á sölu, hefur raunar verið til sölu frá því í fyrrahaust. Eigandi þessarar fallegu og þekktu verslunar við þjóðveginn, Kolbrún Markúsdóttir hyggst flytja til Danmerkur í lok sumars ásamt eiginmanni sínum, Agnari Bent.
Tvær dætur og barnabarn Kolbrúnar búa fyrir í Danmörku auk þess sem Kolbrún stefnir á frekara nám í höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. „Svo er þetta líka ákveðið tækifæri,“ segir Kolbrún sem hefur starfað í Sjafnarblómum undanfarin fimmtán ár, en hún tók við rekstrinum árið 2003. Kolbrún vonast eftir því að nýir eigendur finnist fyrir sumarlok.
Mælti með höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð
Fyrir um þremur árum hóf Kolbrún að læra höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð. „Ég prófaði hana sjálf eftir að ég hafði verið hjá sjúkraþjálfara í langan tíma en hann mælti sjálfur með að ég myndi prófa slíka meðferð. Ég fór svo að læra höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð fyrir þremur árum og er eiginlega búin með allt nám sem er í boði hér heima. Mig langaði því að fara og mennta mig meira í þessum fræðum,“ segir Kolbrún sem hóf að veita höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð fyrir tveimur árum.
Sígildar blómabúðir
En á Kolbrún eftir að sakna þess að vera að vasast í blómum alla daga? „Það sem ég á eftir að sakna mest eru allir góðu kúnnarnir. Að vera í blómunum er aldrei leiðinlegt og mér hefur aldrei leiðst í vinnunni, sem eru ákveðin forréttindi. Blómbúðir halda alltaf vinsældum og eru sígíldar. Blóm eru að verða töluvert vinsæl aftur.“
Panta brúðarvöndinn á Facebook
Stærsti þátturinn í starfseminni hjá Kollu í Sjafnarblómum er að útbúa blóm og kransa fyrir jarðafarir en Kolbrún segir að yfir sumartímann sé einnig mikið að gera í brúðkaupum.
„Það er mikið um að útlendingar séu að koma hingað til lands og gifta sig. Pörin eru búin að panta brúðarvöndinn áður en þau koma til landsins og taka brúðarvöndinn með sér á leiðinni austur þar sem þau gifta sig, til dæmis undir Seljalandsfossi. Þau taka vöndinn hérna hjá okkur vegna þess að það er engin blómabúð austan við Selfoss. Margir hafa samband við okkur í gegnum Facebook og panta brúðarvöndinn þar,“ segir Kolbrún.
Það verða viðbrigði fyrir Kollu að hætta í blómunum og líka fyrir viðskiptavinina sem þekkja vel hennar handbragð. „Ég vona bara að það komi einhver yndisleg manneskja og kaupi búðina.“