Gerir ekki athugasemdir við Þorláksbúð

Kirkjuráð hefur ákveðið að gera ekki athugasemdir við byggingu Þorláksbúðar í Skálholti. Mikill styrr hefur staðið um framkvæmdirnar undanfarið.

Þorláksbúð, sem kennd er við Þorlák helga, á að vera eftirlíking af hinni fornu búð, reist á tóftum hennar og standa nærri Skálholtsdómkirkju. Gagnrýnt er að búðin skyggi á kirkjuna og ætti að vera á öðrum stað.

Árni Svanur Daníelsson, framkvæmdastjóri kirkjuráðs, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að ráðið muni ekki gera athugasemdir við að framkvæmdir haldi áfram. Biskup sat hjá við afgreiðslu málsins.

„Það var mat kirkjuráðs að heimila þetta áfram þannig að menn telja ekki að brotið sé gegn höfundarrétti. Í raun er það svo að öll tilskilin leyfi hafa verið gefin út þannig að Þorláksbúðarfélagið getur haldið framkvæmdum áfram á staðnum. Eins og staðan er í dag er málinu lokið af hálfu kirkjuráðs,“ segir Árni Svanur í samtali við Ríkisútvarpið.

Fyrri greinFrostfisk vantar meira hráefni
Næsta greinMyndgreining á Héraðsskjalasafninu