Stjórn Suðurlandsskóga hefur verið gerð grein fyrir því að áframhaldandi samdráttur verður á fjárveitingum til verkefnisins.
Að sögn Björns Jónssonar, framkvæmdastjóra Suðurlandsskóga, er búið að boða 9% samdrátt á fjárlögum 2011.
Sömuleiðis er gert ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði árið 2012, þó ekki liggi fyrir hve mikill hann verður. Að sögn Björns er verið að fara yfir það þessa daganna hve mikið og hvernig verði skorið niður hjá skrifstofunni en hann vildi ekki segja af eða á um fækkun starfsmanna.
Hjá Suðurlandsskógum starfa sjö manns en eftir niðurskurð síðasta árs voru eftir 4,9 ársverk. Að sögn Björns tóku starfsmenn á sig verulega skerðingu en ekki er ljóst hvort henni verður mætt með sama hætti nú enda hafi möguleikar til sparnaðar þrengst eftir því sem líður á.