Sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti samhljóða fjárhagsáætlun fyrir 2024-2027 á síðasta fundi sínum. Gert er ráð fyrir tæplega 50 milljón króna hagnaði á rekstri næsta árs.
Áætlaðar heildartekjur A- og B hluta nema alls 3,4 milljörðum króna á næsta ári og heildarútgjöld án fjármagnsliða eru áætluð 3 milljarðar króna. Niðurstaða ársins 2024 án fjármagnsliða er áætluð 211 milljónir og rekstrarniðurstaða 2024 jákvæð um 49,9 milljónir. Áætlunin gerir ráð fyrir að skuldahlutfall lækki úr 80% í 75% og skuldaviðmið lækki úr 57% í 54%.
Stærsta fjárfesting ársins á Skógum
Gert er ráð fyrir fjárfestingum að heildarupphæð 388 milljónum króna án fjárfestinga byggðarsamlaga. Þörf sé á uppbyggingu mikilvægra innviða en fjárhagslegir burðir sveitarfélagsins séu þó ekki þannig að hægt sé að fjárfesta fyrir háar upphæðir ár eftir ár. Því er gert ráð fyrir töluvert minni fjárfestingu 2024 en var 2023 þegar bygging nýs leikskóla stóð sem hæst.
Auk þess að vinna áfram að gatnagerð og frágangi í nýrri íbúðabyggð á Hvolsvelli er gert ráð fyrir 35 milljón króna viðhaldi við Hvolsskóla og öðru eins í viðhald á félagsheimilum. Einnig er gert er ráð fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja, undirbúningi að gervigrasvelli, körfuboltavelli á lóð Hvolsskóla og hönnun á útisvæði sundlaugar.
Stærsta einstaka fjárfesting ársins verður síðan framkvæmd á Skógum, þar sem gert er ráð fyrir að byggja upp nýtt bílastæði og þjónustuhús við Skógafoss, i samræmi við skipulag á svæðinu. Sveitarfélagið hyggst hefja gjaldtöku á svæðinu og með henni fjármagna þær framkvæmdi sem nauðsynlegar eru á einum vinsælasta ferðamanna stað á landinu.