Gert ráð fyrir miklum hallarekstri hjá Árborg

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðastliðinn mánudag. Gert er ráð fyrir hallarekstri á A-hluta sveitasjóðs upp á ríflega einn milljarð króna og samtals 842 milljóna halla á samstæðu A- og B-hluta.

Óásættanlegt að leggja fram áætlun með svo miklum halla
Í greinargerð með fjárhagsáætluninni segir bæjarstjórnarmeirihlutinn að það sé ekki gleðiefni að taka fjárhagsáætlun til afgreiðslu með svo miklum halla, og í raun óásættanlegt. Seinni umræða um fjárhagsáætlunina fer fram á fundi bæjarstjórnar þann 16. desember og fram að því verður kapp lagt á að gera tillögur til lækkunar á þessum halla.

Meirihlutinn segir nokkrar ástæður fyrir því að rekstur ársins 2021 lítur sérstaklega illa út. Talsvert atvinnuleysi verði til þess að útsvarstekjur verði lægri en ella og breytingar á umhverfi leikskóla skekki myndina og lendir kostnaður við þá í meira mæli á útgjöldum sveitarfélaga. Opna á nýjan grunnskóla og leikskóla á næsta ári sem veldur einnig snarpri kostnaðarhækkun.

Í greinargerð meirihlutans seigr að hætt hafi verið við ráðningar í ýmis stöðugildi hjá sveitarfélaginu til þess að mæta hallanum og hætt sé við að taka þurfi óvinsælar ákvarðanir sem dregið gætu tímabundið úr þjónustu sveitarfélagsins.

Fjárfestingafylleríið að koma niður á bæjarsjóði
Við umræður á síðasta bæjarstjórnarfundi lögðu fulltrúar minnihlutans í D-listanum fram bókun þar sem þau segja að það sé með öllu óásættanlegt að leggja fram fjárhagsáætlun með viðlíka halla og gert er ráð fyrir

„Sú alvarlega staða sem blasir við í fjárhag sveitarfélagsins […] staðfestir það að anað hefur verið áfram án nokkurrar fyrirhyggju eða stýringar. Það hefur orðið lenska hjá meirihlutanum að fjölga stöðugildum millistjórnenda og sérfræðinga án nokkurra takmarkana og fjárfestingafylleríið er nú að koma niður á bæjarsjóði,“ segir í bókun D-listans en bæjarfulltrúar D-lista vænta þess að róttækar breytingar verði gerðar á áætluninni á milli fyrri og seinni umræðu, „enda stefnir í það með sama áframhaldi að sveitarfélagið verði ekki gjaldhæft innan mjög skamms tíma,“ segir í bókuninni.

Fyrri greinLést eftir að hafa fest sig í vök
Næsta greinBjarg byggir tvö fjölbýlishús á Selfossi