Lögreglu barst tilkynning síðastliðinn föstudag um að 20 fermetra gestahús við Selhólsveg í Grímsnesi væri brunnið til kaldra kola
Talið var að það hafi gerst á tímabilinu frá sunnudeginum 10. til þriðjudagsins 12. apríl síðastliðinn.
Engar vísbendingar eru um eldsupptök. Rafmagn var á húsinu og tveir rafmagnsþilofnar stilltir á lágan hita til að halda húsinu frostfríu. Einnig er vitað að kveikt var á einni sparljósaperu.
Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi segir að það þyki sérstakt að engin tilkynning hafi borist þegar húsið brann sem bendir til að það hafi átt sér stað að næturlagi.
Lögreglan biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 444 2010 eða á logreglan@sudurland.is.
Í síðustu viku bárust tvær tilkynningar um sinubruna, annar í Árnessýslu og hinn í Rangárvallasýslu. Slökkviliðsmenn réðu niðurlögum eldsins og ekkert tjón mun hafa hlotist af.