Ferðaþjónusta bænda býður upp á gistingu á fjölmörgum stöðum á Suðurlandi en einn þeirra er Geirakot í Sandvíkurhreppi.
Þar taka hjónin María Hauksdóttir og Ólafur Kristjánsson á móti gestum en þau tóku við rekstri gistingarinnar fyrr á árinu. Geirakot stendur við Votmúlaveg og er beygt af Eyrarbakkavegi 3 km fyrir sunnan Selfoss.
“Það er búið að vera heilmikið að gera. Þetta er þriðja sumarið sem við bjóðum upp á gistingu og umferðin fer vaxandi,” segir María. “Þetta byrjaði þannig að gamla íbúðarhúsið stóð autt hérna á hlaðinu og þetta var eitthvað sem okkur langaði að koma af stað þar sem gistimöguleikarnir eru ekki margir á þessu svæði í sveitarfélaginu.
Við ákváðum því að prófa að fara út í þetta og sjá hvort maður hefði eitthvað uppúr þessu og líka bara til að sjá hvernig okkur líkaði þetta. Þetta er mjög skemmtilegt þó að auðvitað sé þetta bindandi, en það eru beljurnar líka,” segir María en í Geirakoti er einnig kúabú.
“Þetta fer ágætlega saman við búskapinn. Þetta er ekta bændagisting og gestirnir hafa gaman af því að fá að kíkja á kýrnar í fjósinu. Margir þeir sem reka bændagistingu fara út í hana eftir að þeir hætta búskap en þetta fer ágætlega saman hjá okkur, við erum með blandaðan búskap, fjós og ferðamenn,” segir María en gistingin er opin allt árið utan hvað lokað er í desember og janúar.
“Þetta eru langmest útlendingar sem sækja hingað til okkar. Bókunarstaðan í sumar er góð, menn fóru að taka við sér uppúr miðjum júní og háannatíminn stendur alveg út ágúst,” segir María en í Geirakoti eru fimm herbergi með ellefu gistiplássum, sjö uppábúin rúm á efri hæðinni og á þeirri neðri eru tvö herbergi með fjórum kojuplássum, ætluðum fyrir svefnpokapláss. Í húsinu er eldunaraðstaða, baðherbergi, sjónvarpsherbergi og aðgangur að tölvu og neti auk þess sem boðið er upp á morgunmat.