Gestir Hótel Selfoss fengu að snúa aftur til herbergja sinna kl. 4 í nótt en hótelið var rýmt eftir að eldur kom upp í þvottahúsi í kjallara á öðrum tímanum í nótt.
Um 130 gestir voru á hótelinu og var fjöldahjálparstöð Rauða krossins ræst vegna þessa.
Húsnæði Rauða krossins á Selfossi var opnað og fólkið dvaldi þar á meðan það beið. Sumir höfðu yfirgefið hótelið á náttfötum einum fata en sem betur fer var veður milt á þessari stystu nótt ársins og engum varð meint af.
Þó fólk bæri sig yfirleitt vel var sumum illa brugðið og mætti fólk frá Rauða krossinum á hótelið klukkan sjö í morgun til að veita sálrænan stuðning fyrir þá sem þess óskuðu.