Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur brugðið á það ráð að sækja um framlengingu á yfirdráttarláni hjá Arion banka uppá þrjátíu milljónir króna.
Að sögn sveitarstjórans, Eyglóar Kristjánsdóttur, er gripið til þessa ráðs þar sem sveitarfélagið getur ekki borgað niður lánið. Því sé ekki hægt að skuldbreyta því í önnur lán og hefja niðurgreiðslu. ,,Við getum bara ekki borgað af þessu,” sagði Eygló sem játaði að þetta kostaði sveitarfélagið óþægilega háar vaxtagreiðslur.
Sótt er um framlengingu til eins árs hjá Arion eða til mars 2013, eða þar til niðurstaða fæst í endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins í samvinnu við Eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga.
,,Vandinn er að sveitarfélagið hefur ekki þær tekjur í dag sem þarf til að reka sig,” sagði Eygló.