Selfyssingurinn Helga Guðrún Lárusdóttir stendur fyrir heldur óvenjulegum dansviðburði næstkomandi mánudag.
Helga Guðrún stofnaði Facebook-viðburðinn „Öll dansa“ þar sem hún hvetur fólk á öllum aldri til að fara út fyrir heimili sitt og dansa á mánudaginn klukkan 18.
„Ég vil hvetja alla sem vilja fara út á plan eða götu eða stigagang eða svalir eða það sem virkar fyrir þau, með hvaða lag sem er og dansa við það og fara svo aftur inn – eða auðvitað halda áfram að dansa, sé stemningin eftir því,“ segir Helga Guðrún í samtali við sunnlenska.is.
Helga Guðrún segir að hugmyndin sé ekki upphaflega hennar. „Ég sá stelpu sem ég þekki varpa þessu fram í gríni til nágranna síns á Facebook en hún deildi myndbandi frá enskum náunga þar sem sést til nokkurra nágranna dilla sér í takt við lagið It´s Not Unusual með Tom Jones, úti á götu fyrir framan húsin sín.“
„Það eru allir svo glaðir og hressir á þessu myndbandi að ég stóðst ekki mátið og setti myndbandið á mína Facebook-síðu, þar sem ég skoraði á nokkrar nágrannakonur mínar að taka þátt í þessu með mér, svona jafn mikið í gríni og alvöru,“ segir Helga Guðrún.
Vonast til að sem flestir taki þátt
Helga Guðrún segir að nágrannakonur hennar hafi allar orðið mjög spenntar fyrir hugmyndinni. „Ég ákvað bara að prófa að búa til viðburð á Facebook og leyfa hverjum sem er að vera með í fjörinu, þá bara í sinni götu samt. Ég held að það væri ekkert allt of sniðugt að reyna að fá fólk til að fjölmenna í okkar litlu götu,“ segir Helga Guðrún og hlær en hún er búsett í Vallarlandinu á Selfossi.
„En svo verður tíminn bara að leiða í ljós hvort fólk vilji gera þetta í alvöru eða hvort ég verði ein með börnin mín úti að dansa á mánudaginn, ég geri allavega passlega ráð fyrir því að maðurinn minn eigi eftir að finna gamla spólu sem hann þarf að skila akkúrat þarna klukkan 18 á mánudaginn, eða eitthvað álíka brýnt,“ segir Helga Guðrún í léttum tóni.
Lagið sem fékk alla brekkuna til að dansa
„Ég kom með tillögu að lagi sem verður spilað hérna í Vallarlandinu, það heitir What’s Up? með 4 Non Blondes í dans-remix útgáfu dj Miko. Þetta lag kom fyrst upp í hugann á mér sem danslag því ein besta þjóðhátíðarminningin mín tengist því.“
„Þetta hefur verið einhversstaðar á milli 2009-12 þegar Páll Óskar tróð upp, beint á eftir brekkusöngnum. Það sátu allir voða rómó í brekkunni, nánast með tárin í augunum eftir að hafa sungið Lífið er yndislegt og faðmað alla nærstadda þegar þetta lag byrjaði að hljóma. Þá gjörsamlega tæmdist brekkan á met-tíma og fólk hljóp niður á dansgólf í einhverri gleði-ástar-glimmer vímu og fór að dansa eins og lífið lægi við,“ segir Helga Guðrún.
„Ég tengi bara svo sterkt við þessa minningu og get ekki fyrir mitt litla líf sleppt því að dansa þegar ég heyri þetta lag, þó danshæfileikar mínir séu sannarlega af skornum skammti þá er samt bara svo gaman að dilla sér við skemmtilega tónlist!“
Kóræfingar og saumaklúbbur í gegnum netið
Helga Guðrún segir að ef vel verður í þetta tekið þá gæti hún alveg hugsað sér að gera þetta að vikulegum viðburði. „Allavega á meðan þetta samkomubann er enn í gildi.“
Eins og með svo marga aðra þá tekur samkomubannið á Helgu Guðrúnu. „Ég er vissulega mikil félagsvera og fæ mikið út úr því að vera í kringum fólk en með nútímatækni tókst mér meira að segja að fara á kóræfingu með Jórukórnum í gegnum tölvuna í gær. Ég er líka búin að hitta bestu vinkonur mínar í rauðvín í gegnum tölvuna og mæta í einn saumaklúbb, þó ég hafi reyndar ekkert saumað, bara talað.“
„Ég held að þetta samkomubann neyði okkur svolítið til að líta meira inn á við og læra að meta það sem við eigum heima hjá okkur og í nærumhverfinu. Það kennir okkur aðeins að það sé í lagi að hægja á öllum asanum sem fylgir líðandi stundu. Ég vildi alls ekki tengja þetta þessari fjandans veiru, því það er í alvöru ekki neitt í gangi sem tengist henni ekki, en kannski getum við lagt henni, og öllu sem henni tengist og gleymt okkur í trylltum dansi á mánudaginn klukkan 18!“ segir Helga Guðrún að lokum.