Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði friðlýsingu Geysis í Haukadal í dag, 17. júní.
Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar. Til marks um það draga goshverir um heim allan heiti sitt af Geysi auk þess sem hverahrúður er iðulega kallað „geyserite“.
Fjölmargir hverir og laugar eru á friðlýsta svæðinu – goshverir og leirhverir sem og leirugir vatnshverir. Eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir en meðal annarra hvera má nefna Blesa, Sóða, Litla Geysi, Litla Strokk, Vigdísarhver, Háahver, Sísjóðanda og Óþerrisholu. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði.
Upp af hverasvæðinu rís hið svipmikla Laugarfell (187 m) en innan marka friðlandsins er einnig að finna plöntutegundina laugadeplu sem skráð er á válista. Þá eru menningarminjar innan svæðisins, m.a. svokallaðir konungssteinar sem vitna um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins til Íslands.
Stuðlað að endurheimt náttúrufars
Með undirrituninni í dag er Geysir innan marka jarðarinnar Laugar friðlýstur sem náttúruvætti. Markmiðið er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að endurheimt náttúrufars á svæðinu sem raskað hefur verið og það fært til fyrra horfs eins og unnt er.
Órjúfanlegur hluti af ímynd Íslands
„Það er fátt meira viðeigandi en að friðlýsa Geysi og Geysissvæðið á þjóðhátíðardaginn sjálfan,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Geysir, Strokkur og svæðið í heild sinni er sennilega langþekktasta náttúruundur landsins og hefur gríðarlegt aðdráttarafl. Svæðið er líka órjúfanlegur hluti af ímynd Íslands sem lands náttúru, sögu og menningar. Þar sem Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði Jarðar tel ég friðlýsingu þess vera heimsviðburð og Íslendingar mega vera stoltir af því að taka þá ákvörðun að vernda svæðið fyrir núverandi og komandi kynslóðir, allsstaðar í heiminum.“