Selfyssingurinn Gissur Kolbeinsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri vettvangseftirlits hjá Matvælastofnun.
Gissur er með farsæla stjórnunarreynslu að baki en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Bandalags háskólamanna í samtals þrjú og hálft ár en þar áður starfaði hann sem fjármála- og rekstrarstjóri félagsins í sjö ár.
Sem framkvæmdastjóri BHM vann Gissur náið með 24 fag- og stéttarfélögum sem heyra undir bandalagið og framfylgdi ákvörðunum stjórna þeirra, en málaflokkar Matvælastofnunar tengjast mörgum þeirra.
Gissur er með M.Sc. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands og B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst. Auk þess hefur hann lokið diplómanámi sem viðurkenndur stjórnarmaður.