Sveitarfélögin í Skaftafellssýslum; Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Hornafjörður, boðuðu til málþings um öryggisinnviði á Fosshótel Vatnajökli á Lindarbakka í Nesjum í dag. Málþingið var afar vel sótt enda eru innviðir sem tengjast öryggi íbúa og ferðamanna í Skaftafellssýslum mjög þandir og álag á viðbragðsaðila gríðarlegt.
Í sveitarfélögunum þremur er íbúafjöldi 4.200. Til samanburðar eru útgefin gistileyfi á svæðinu yfir 5.600. Þetta þýðir að ferðamenn sem gista á hótelum og gistiheimilum á hverri einustu nóttu, nánast allt árið um kring, eru 40% fleiri en íbúar sveitarfélaganna. Þá er ótalinn sá mikli fjöldi sem gistir í heimagistingu, í ferðavögnum eða tjöldum, svo ekki sé talað um þá sem aka um svæðið en gista ekki.
„Í dag eru viðmið varðandi heilbrigðisþjónustu og öryggisviðbragð í sveitarfélögum reiknuð miðað við höfðatölu íbúa. Öllum er ljóst að sú aðferð er úrelt og engan veginn til þess fallinn að mæta því álagi sem er í Skaftafellssýslum vegna fjölda ferðamanna,“ segir Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri á Hornafirði.
Á málþingið mættu allir helstu hagsmunaaðilar og tóku samtal um stöðuna og mögulegar lausnir. Sigurjón segir að ekki sé til einföld lausn á þessari áskorun því verkefnið krefst sameiginlegrar sýnar og átaks allra hagaðila, ekki síst stjórnvalda.
„Það voru líflegar umræður á málþinginu og samhljómur allra hagaðila um brýna þörf á aðgerðum strax. Næstu skref verða að stofna samráðshóp hagsmunaaðila í Skaftafellssýslum og mun sá hópur beita sér fyrir tafarlausum aðgerðum af hálfu stjórnvalda þegar kemur að öryggi íbúa og ferðamanna í sveitarfélögunum,“ bætir Sigurjón við.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar töflur sem birtar voru á fundinum og sýna meðal annars stóraukna meðalumferð á Suðurlandi og aukinn gestafjölda í Jökulsárlóni.