Bæjarráð Hveragerðisbæjar samþykkti í síðustu viku að skólamáltíðir í Grunnskólanum í Hveragerði verði gjaldfrjálsar skólaárið 2024-2025. Áfram er þó gert ráð fyrir að foreldrar skrái börn sín í skólamáltíðir.
„Ráðstöfunin hefur óhjákvæmilega í för með sér aukin fjárútlát fyrir bæjarfélagið en verið er að kanna möguleikann á að sameiginlegt, miðlægt eldhús verði í nýrri viðbyggingu Grunnskólans. Eldhúsið gæti þá nýst fyrir alla leik- og grunnskóla bæjarins og myndi þá leiða til aukinnar hagkvæmni í rekstri,“ segir í tilkynningu frá Hveragerðisbæ.
Bæjarráð vísaði því til velferðar- og fræðslunefndar að fjalla nánar um þessi mál á sínum vettvangi. Reiknað er með að nefndin leggi umsögn sína og tillögur fyrir fund bæjarráðs í september 2024.
Bæjarfulltrúi D-listans sat hjá við afgreiðslu málsins í bæjarráði en fagnar því að skoða eigi þann möguleika að vera með eitt eldhús fyrir skólastofnanir Hveragerðisbæjar.