Stjórn Selfossveitna hefur samþykkt 12,5% hækkun á gjaldskrá sinni.
Fjallað var um málið á fundi framkvæmda- og veitustjórnar Árborgar í gær.
Gjaldskrá Selfossveitna er ekki vísitölubundin og er fyrirséð að hækka þurfi gjaldskrána til að vega upp á móti hækkandi rekstrar- og framkvæmdakostnaði til að áætlanir um hæfilegan rekstrarafgang til framkvæmda fái staðist.
Stærstu framkvæmdir næsta árs eru m.a. borun eftir heitu vatni og 1. áfangi í tvöföldun aðveitulagnar frá Laugardælum. Gert er ráð fyrir á annað hundrað milljónum í nauðsynlegar fjárfestingar árið 2012.
Í greinargerð með samþykktinni kemur fram að verðlag hafi breyst með þeim hætti að byggingarvísitala frá 2010 hefur hækkað um 10,7 % sl. 12 mánuði skv. vef Hagstofu Íslands. Gert er ráð fyrir að verðbólga næsta árs verði yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.