Eigendur Fjaðrárgljúfurs hafa síðustu mánuði unnið að því að lagfæra bílastæði og göngustíga ásamt því að laga til salernisaðstöðu á svæðinu. Samhliða því hefur gjaldtaka verið tekin upp á bílastæðum á svæðinu.
Vísir greinir frá þessu og segir að einnig standi yfir vinna við þróun svæðisins í heild, með tilliti til uppbyggingar innviða og þjónustu fyrir gesti ásamt gerð friðlýsingarskilmála og stjórnunar- og verndaráætlunar í samráði við Umhverfisstofnun.
Gjaldtaka á bílastæðum á svæðinu er í gegnum greiðslulausn Parka, þar sem boðið er uppá greiðslu í snjallforriti Parka, á vefsíðu eða í greiðsluvél á staðnum.
Daggjald fyrir fimm sæta fólksbíl er 1.000 krónur en fyrir smárútur og stærri bíla frá 2.500 til 8.500 krónur.