Sýslumaðurinn í Árnessýslu Selfossi hafnaði lögbannsbeiðni ríkisins vegna fyrirhugaðar gjaldtöku á Geysissvæðinu. Gjaldtakan mun því hefjast einhvern næstu daga..
Í yfirlýsingu frá Landeigendafélagi Geysis segir að með úrskurði sínum virði sýslumaðurinn eignarétt landeigenda og undirstrikar réttmætar kröfur Landeigendafélagsins varðandi gjaldtöku af ferðamönnum sem heimsækja svæðið.
„Ríkið þáði ekki boð um aðild að Landeigendafélaginu við stofnun þess, þrátt fyrir það vera einn af eigendum svæðisins. Engu að síður lagði Landeigendafélagið áherslu á að upplýsa ríkið, meðeigenda sinn af svæðinu, um fyrirætlanir sínar. Það réði miklu varðandi úrskurð sýslumanns,“ segir í yfirlýsingunni.
Átta starfsmenn, þrjár konur og fimm karlar hafa verið ráðnir til starfa hjá Landeigendafélaginu til að sjá um gjaldtöku, öryggisvörslu og umhirðu svæðisins. Rukkað verður frá átta á morgnana til níu á kvöldin alla daga ársins. Aðgangseyrir verður 600 krónur á mann, fyrir sextán ára og eldri. Einar Tryggvason á Geysi hefur verið ráðinn svæðisstjóri á staðnum og yfirmaður starfsmannanna.