Landeigendafélag Geysis hefur ákveðið að hætta gjaldtöku við Geysi í framhaldi af þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands að sýslumanninum á Selfossi beri að framfylgja kröfu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um lögbann á gjaldtökuna.
Sýslumaður hafði áður hafnað lögbannsköfu fjármálaráðuneytisins.
Í tilkynningu frá landeigendafélaginu segir að niðurstaða Héraðsdóms Suðurlands sé félaginu mikil vonbrigði. Dómur vekur upp spurningar um eignarrétt og getur tafið verulega fyrir nauðsynlegri verndun og uppbyggingu á Geysissvæðinu sem er þegar á lista Umhverfisstofnunar um þau verndarsvæði sem eru í mikilli hættu á að tapa verðgildi sínu.
Landeigendafélagið mun nú fara ítarlega yfir röksemdir dómsins og ákveða í framhaldi af því hver næstu skref félagsins í málinu verða.