Landeigendafélag Geysis hefur ákveðið að fresta gjaldtöku af ferðamönnum sem heimsækja Geysissvæðið. Gjaldtakan átti að hefjast næstkomandi mánudag, 10. mars.
Ákvörðunin er tekin vegna lögbannskröfu sem Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra f. h. Ríkissjóðs Íslands, sendi sýslumanninum á Selfossi í gær, föstudaginn 6. mars. Þar er þess krafist að bann verði sett við því að landeigendafélagið innheimti gjald af ferðamönnum sem heimsækja Geysissvæðið. Lögmaður Landeigendafélags Geysis er nú með lögbannskröfuna til efnislegrar athugunar.
Í tilkynningu frá Landeigendafélaginu segir að það hafi án árangurs óskað eftir fundi með fjármála- og efnahagsráðherra um gjaldtöku af ferðamönnum til verndar og uppbyggingar á Geysissvæðinu. Félagið vonar að lausn finnist á málinu sem fyrst svo unnt sé að forða yfirvofandi, varanlegum og óafturkræfum skemmdum. Aðgerða sé þörf.
Gjaldtaka við Geysissvæðið er nauðsynleg að mati landeigenda sem bera ábyrgð á varðveislu svæðisins sem verulega hefur látið á sjá en um 6000 manns heimsækja Geysissvæðið á dag þegar mest er.
„Landeigendur bera ábyrgð á varðveislu svæðisins. Þeim ber að vernda þessa náttúruperlu og tryggja um leið að svæðið verði áfram aðgengilegt og öryggi ferðamanna tryggt eins og kostur er. Eigendur svæðisins hafa í áranna rás borið mikinn kostnað af svæðinu án þess að nokkrar tekjur hafi komið á móti til að sinna nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu á hverasvæðinu,“ segir í tilkynningunni.
„Vinna við öryggisáætlun svæðisins og forgangsröðun verkefna þegar hafin. Nýkynnt verðlaunatillaga um uppbyggingu á Geysissvæðinu undirstikar nauðsyn þess að vernda Geysissvæðið, forða því frá skemmdum og auka upplifun ferðamanna. Geysissvæðið ber að vernda og gjaldtaka er forsenda þess,“ segir ennfremur í tilkynningunni frá Landeigendafélaginu.