Glæný tæki hreinsuð úr sumarbústað

Að kvöldi síðastliðins þriðjudags eða aðfaranótt miðvikudags var farið inn í sumarbústað við Fljótsbakka í landi Ásgarðs í Grímsnesi og þaðan stolið öllum heimilistækjum og hreinlætistækjum sem eigandinn hafði nýlega komið með í húsið.

Tækin voru öll ný og í umbúðunum enda hafði þeim ekki verið komið fyrir á sínum stað.

Ljóst er að stóran flutningabíl hefur þurft til að flytja öll tækin sem og verkfæri sem einnig var stolið. Óupplýst er hverjir hafa þarna verið að verki.

Bústaðurinn stendur við árbakka Sogsins þar sem það rennur inn í Álftavatn og er ekki sýnilegur frá Þingvallavegi sem er skammt frá. Ekki er útilokað að þjófnaðurinn hafi verið skipulagður og þjófunum kunnugt um að tækin væru í húsinu.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem orðið hafa varir við flutningabíl á þessu svæði á fyrrgreindu tímabili eða búa yfir einhverjum upplýsingum um þjófnaðinn að hafa samband í síma lögreglunnar 480 1010.

Fyrri greinVeiðiréttur í Soginu seldur á 181 milljón
Næsta greinFjóla Signý og Jón Daði íþróttafólk Selfoss