Félagar í Hjálparsveit skáta í Hveragerði, HSSH, héldu upp á 35 ára afmæli sveitarinnar sl. laugardag. Um leið var aðstaða sveitarinnar tekin formlega í notkun.
Hús hjálparsveitarinnar eyðilagðist í stórbruna á gamlársdag árið 2005. Sveitin var komin aftur inn í húsið árið 2008 og síðan þá hefur það verið byggt upp í áföngum og nú er aðstaða félagsmanna öll hin glæsilegasta.
Í afmælisveislunni á laugardag blessaði sr. Jón Ragnarsson húsið um leið og það var tekið formlega í notkun. Félaginu bárust góðar afmælisgjafir og einn félagsmaður, Sveinn Sigurjónsson, var heiðraður sérstaklega en hann er eini félagsmaðurinn sem starfað hefur með sveitinni frá stofnun hennar.