Fjölbrautaskóli Suðurlands er 30 ára í dag. Hátíðarhöld vegna afmælisins hófust í morgun og standa fram á kvöld.
Að lokinni setningu dagskrár var haldið í skrúðgöngu um gömlu hlaupabrautina undir leiðsögn Þórs Vigfússonar, fyrrverandi skólameistara. Á upphafsárum skólans fór kennsla fram víða um Selfossbæ og leiddi Þór gönguna á milli staða og sagði sögur við hverja kennslustöð.
Eftir gönguna afhjúpuðu nemendur á vegum nemendaráðs skilti við skólann og síðan var afmælissöngurinn sunginn. Í tilefni dagsins hefur skólinn verið útnefndur Heilsueflandi framhaldsskóli og mættu þeir Héðinn S. Björnsson og Geir Gunnlaugsson, landlæknir, í veisluna til að staðfesta það.
Fyrirtæki á svæðinu bjóða upp á morgunmat í skólanum en síðan verður opið hús og uppistand fram eftir degi.
Nemendur og starfsfólk sjá um dagskrá.
Í kvöld verður boðið upp á kjötsúpu og dinnertónlist og dagskránni lýkur með hátíðarhöldum í sal skólans þar sem fjölmargir skemmtikraftar stíga á stokk og ávörp verða flutt.