Ný líkamsræktarstöð, Sportstöðin, opnaði við Eyraveg 33 á Selfossi í morgun. Frítt er í stöðina fyrstu þrjá dagana.
Árni Steinarsson og Anna Einarsdóttir sem eiga og reka stöðina segja að móttökurnar fyrsta morguninn hafi verið góðar og fólk sé ánægt með tækjakostinn og aðstöðuna.
Í Sportstöðinni er m.a. fullkominn tækjasalur, æfingasalur fyrir hóptíma og í kjallaranum er glæsilegt spa með heitum potti, gufubaði og ljósabekk.
Í tilefni af opnuninni er frítt í stöðina 1.-3. júlí og geta gestir mætt, skoðað og tekið hressilega á því og slakað svo á í pottinum og gufunni.
Opnunartilboð á árskortum er einnig fyrstu dagana og skráning er hafin á lokuð námskeið. Auk þess hefjast opnir hóptímar fyrir korthafa þann 5. júlí.