Verslanir Gina Tricot, Pennans-Eymundsson, H-verslun og Emil&Lína opna samtímis í maí í glænýjum verslunarkjarna við Larsenstræti á Selfossi.
Verslunarkjarnanum er ætlað að efla verulega verslunarframboð á svæðinu og auka fjölbreytni og þægindi fyrir bæjarbúa sem og gesti Selfoss og Suðurlands alls.
Nafnasamkeppni um nafnið á nýja verslunarkjarnanum fer fram í samstarfi við Sunnlenska.is en nánari upplýsingar um opnunardaginn og hátíðarhöld sem honum fylgja verða kynntar á næstunni. Nafnasamkeppnin fer fram í Facebook-grúppunni Íbúar á Selfossi.
25-35 ný störf í verslun og þjónustu
Að uppbyggingunni stendur félagið Vigri ehf. í eigu Hannesar Þórs Ottesen, sem hefur staðið að uppbyggingu íbúðar- og iðnaðarhúsnæðis á svæðinu í áratugi. Húsið, sem nú er risið, telur rúmlega 1.600 fermetra og inniheldur fimm verslunarbil af ólíkri stærð.
„Við erum einstaklega ánægð með að geta tekið þátt í þeirri öflugu þróun sem á sér stað á Selfossi. Á svæðinu er nú þegar fjöldinn allur af öflugum verslunum og þjónustuaðilum eins og Lindex, Bónus, Vínbúðin, Almar bakari, Pósthúsið auk þess sem Johan Rönning og Ilva ásamt fleiri verslunum hafa komið sér vel fyrir hinum megin við Suðurlandsveginn. Bæði Húsasmiðjan og Byko hafa einnig styrkt verslun á svæðinu til muna,“ segir Hannes Þór Ottesen, eigandi Vigra ehf.
„Með fyrirhugaðri nýrri brú yfir Ölfusá á næstu árum og aukinni umferð um Larsenstræti verður staðsetning verslunarkjarnans enn betri og mun efla þjónustu á svæðinu. Við reiknum með að hið nýja húsnæði muni skapa um 25-35 ný störf í verslun og þjónustu, sem styrkir enn frekar atvinnulífið og samfélagið í heild sinni,“ bætir Hannes við.

Gina Tricot
Gina Tricot er alþjóðlegt tískuvörumerki þekkt fyrir nútímalega, kvenlega hönnun og hagkvæmt verð fyrir ungar konur. Með síbreytilegum vörulínum leggur Gina Tricot áherslu á sjálfbærni og samfélagsábyrgð í framleiðslu sinni en Gina Tricot kynnti m.a. nýja yoga línu nýverið auk hinnar sívinsælu Young línu sem báðar verða aðgengilegar í hinni nýju verslun.
„Móttökur við Gina Tricot síðan við opnuðum fyrstu verslun okkar í Kringlunni og á netinu árið 2023 hafa verið algjörlega framar okkar björtustu vonum. Þegar tækifæri skapaðist til að koma með Gina Tricot heim á Selfoss var ekki annað í stöðunni en að láta til skarar skríða. Við erum öll ótrúlega spennt fyrir að kynna Gina fyrir okkar ástkæru Selfyssingum og nærsveitungum,“ segir Albert Þór Magnússon, umboðsaðili Gina Tricot á Íslandi.
Penninn Eymundsson
Eymundsson er leiðandi íslensk bókabúðarkeðja sem býður fjölbreytt úrval af bókum, ritföngum og gjafavörum fyrir alla aldurshópa en árið 1872 opnaði athafnamaðurinn Sigfús Eymundsson fyrstu bókaverslunina á Íslandi og spannar því saga þessa merka fyrirtækis yfir 150 ár. Penninn rekur nú 16 verslanir um land allt undir nafninu Penninn Eymundsson en verslunin á Selfossi verður sú 17. í röðinni. Jafnframt rekur Penninn þrjár ferðamannaverslanir undir nafninu The Viking og eina undir nafninu Islandia.
„Selfoss er vaxandi samfélag sem við höfum lengi fylgst með og lengi langað til að gera okkar vöruúrval aðgengilegt með viðunandi hætti. Þegar færi gafst að staðsetja okkar meðal fyrirtækjanna sem verma Larsenstrætið var valkosturinn augljós,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans-Eymundsson.
H verslun
H verslun býður upp á vandaðan og stílhreinan íþróttafatnað fyrir konur, karla og börn frá leiðandi vörumerkjum á borð við NIKE og Speedo, auk vara frá fleiri vörumerkjum á sviði íþrótta, heilsu og heilbrigðis. Verslunin þjónar fólki sem vill setja heilsuna framar öllu og er svo sannarlega fremst í heilsu. Þess vegna heitir verslunin H verslun.
„Okkar frábæru vörumerki hafa lengi sést á Selfossi, sveitarfélagi sem þekkt er fyrir gæði íþróttastarfs og afreka langt aftur í tímann. Okkur fannst það orðið tímabært að bjóða heilsuþyrstum Sunnlendingum uppá H verslun á Selfossi. Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og þar liggur okkar sérþekking,“ segir Hörður Þórhallsson, forstjóri Icepharma, eiganda H verslunar.
Emil og Lína
Emil og Lína er heillandi sérverslun með fatnað og vörur fyrir börn, þekkt fyrir fallega íslenska hönnun og gæðaefni. Verslunin býður upp á fjölbreytt úrval af fatnaði, leikföngum og gjöfum sem gleðja bæði börn og foreldra.
„Eins og Selfyssingar vita spannar saga Emil&Lína einn og hálfan áratug þar sem íslenska ævintýrið byrjaði með tengingar við ærslasögur sænsku dalanna. Þegar við hófum ferðalagið í skúrnum hér fyrir 15 árum síðan var það fjarlægur draumur að geta boðið uppá okkar eigin hönnun sem vermt gæti íslensk börn. Það er með ótrúlegri tilhlökkun sem við stígum þessi skref aftur á Selfoss, þar sem þetta allt byrjaði,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, stofnandi Emil&Lína.