Það er orðinn árviss hefð að markað-, menningar- og jafnréttismálanefnd Rangárþings ytra blási til jólaskreytingakeppni á aðventunni.
Keppt var í þremur flokkum í ár og fjölmargar tilnefningar bárust. Best skreytta húsið er á Lækjarbraut 11 á Rauðalæk, best skreytta jólatréð er á Bogatúni 32 og best skreytta fyrirtækið er Hellarnir við Hellu.

Best skreytta húsið: Lækjarbraut 11
Þau Jón og Ella á Lækjarbraut 11 á Rauðalæk eru vel að því komin að hljóta verðlaun fyrir best skreytta húsið enda hafa þau lagt mikið í skreytingarnar, bæði úti og inni. Jón hefur meira að segja hannað og búið til ljósaskiltin sem eru fyrir utan hjá þeim sjálfur og það er svolítið eins og að koma inn í jólaland að kíkja til þeirra.


Best skreytta tréð: Bogatún 32 hjá Kristbjörgu Sigurjónsdóttur
Í garðinum hjá Kristbjörgu er einstaklega vel snyrt og fallega skreytt grenitré sem er eins og klippt út úr bíómynd.

Best skreytta fyrirtækið: Hellarnir við Hellu
Það vakti strax athygli þegar ljósin hjá Hellunum fóru upp á aðventunni. Þau eru bæði áberandi og falleg og hafa svo sannarlega lífgað upp á umhverfið í skammdeginu.
