Glæsilegt félagsheimili SVFS heitir Víkin

Afmælisbarn dagsins, Örn Grétarsson, afhjúpaði skilti með nafni hússins. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýtt og glæsilegt félagsheimili Stangaveiðifélags Selfoss á Fossnesi við Ölfusá var vígt í dag við hátíðlega athöfn. Húsið hefur fengið nafnið Víkin, en svo nefnist veiðisvæðið sem það stendur við.

Guðmundur Marías Jensson, formaður SVFS, ávarpaði gesti, fór yfir sögu félagsins, og þakkaði sérstaklega bæjaryfirvöldum í Árborg og Gunnari Egilssyni, fyrrverandi bæjarfulltrúa, fyrir stuðninginn við byggingu nýja félagsheimilisins. Aðdragandinn að byggingu þess hafi verið langur, en fyrsta skóflustungan var tekin sumarið 2016 og síðan þá hafa félagsmenn í SVFS byggt húsið í sjálfboðavinnu. Hluti hússins var tekinn í notkun í fyrrasumar.

Örn Grétarsson afhjúpaði skilti með nafni hússins, en eftir nafnasamkeppni innan félagsins var nafnanefnd sammála um að húsið skyldi heita Víkin. Sr. Arnaldur Bárðarson, prestur á Selfossi, blessaði húsið og gestir fluttu ávörp og færðu félaginu ýmsar gjafir sem nýtast munu í húsinu.

Veiðimennirnir eru ekki hættir að fagna, því Stangaveiðifélag Selfoss fagnaði 75 ára afmæli á síðasta ári en sökum samkomutakmarkana var ekki hægt að halda upp á tímamótin fyrr en nú. og verður afmælishátíð félagsins haldin á Hótel Selfossi í kvöld.

Sr. Arnaldur Bárðarson, prestur á Selfossi, blessaði húsið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Bragi Bjarnason, formaður bæjarráðs Árborgar, færði félaginu risajukku sem mun vonandi vaxa og dafna í nýja félagsheimilinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fjöldi félagsmanna var viðstaddur vígsluhátíðina. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Hrefna Halldórsdóttir, í Veiðisport, kom færandi hendi með loftmynd af Hlíðarvatni og örnefnakort af Ölfusá. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Stjórn Stangaveiðifélags Selfoss; (f.v.) Ægir Garðar Gíslason, Agnar Pétursson, Guðmundur Marías Jensson, Frímann Birgir Baldursson, Sverrir Einarsson og Grímur Hergeirsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Nýja félagsheimilið er hin glæsilegasta bygging. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEltu meistarana eins og skugginn
Næsta greinNýja brúin vígð í blíðskaparveðri