Glæsilegur öldungur á rúntinum

Ljósmynd/Byggðasafn Árnesinga

Um þessar mundir er Byggðasafn Árnesinga að tæma Mundakotsskemmu á Eyrarbakka af munum sem hafa verið þar í marga áratugi.

Þar á meðal hefur verið þar Ford vörubíll, árgerð 1942, sem fyrrum var í eigu Ólafs heitins Guðjónssonar í Mundakoti. Í dag lagði Fordinn af stað í ferð í gegnum þorpið í nýja og stærri aðstöðu að Búðarstíg 22 þar sem hann verður varðveittur í komandi framtíð.

Að sögn Lýðs Pálssonar, safnstjóra, hittist þetta skemmtilega á því í dag er nákvæmlega ár síðan Héraðsnefnd Árnesinga samþykkti að kaupa Búðarstíg 22 (Alpan-húsið) fyrir Byggðasafn Árnesinga.

Sennilega hefur bíllinn ekki verið hreyfður í 56 ár en árið 1964 eignaðist Ólafur í Mundakoti nýjan vörubíl og lagði þessum innst í skemmuna. Það eru þeir Guðlaugur E. Jónsson og Emil Guðjónsson sem sjá um að flytja munina fyrir söfnin.

Fyrri greinSex sóttu um prestsstarf á Selfossi
Næsta greinHamar vann toppslaginn