Gleðidagur í leikskólanum Árbæ

Ljósmynd/Árborg

Síðastliðinn föstudag var formlega frá samningi milli Sveitarfélagsins Árborgar og Hjallastefnunnar ehf. um rekstur leikskólans Árbæjar á Selfossi. Við sama tilefni var sérstakur útikjarni opnaður á leikskólalóðinni.

Árbær tók formlega til starfa sem Hjallastefnuleikskóli þegar hann opnaði eftir sumarleyfi en í lok síðasta árs gerðu Hjallastefnan og Sveitafélagið Árborg samkomulag sín á milli um rekstur leikskólans. Hjallastefnan réði til sín leikskólastjórann Maríu Ösp Ómarsdóttur, sem hefur stýrt þeim breytingum sem verða á rekstri leikskólans.

Skemmtileg breyting hefur verið gerð á lóð og umhverfi skólans en í starfi Hjallastefnunnar er lögð áhersla á opinn efnivið og náttúrulegt umhverfi barna. Hefðbundin leiktæki hafa verið fjarlægð og lóðin hefur breyst í skapandi heim fyrir börn og starfsfólk. Útikjarni hefur risið á lóð skólans í sumar og var hann formlega tekinn í notkun á föstudaginn þegar Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar og Bragi Bjarnason bæjarstjóri klipptu á borðann og buðu börnin velkomin til starfa í þessu glæsilega húsi.

Bragi og Margrét Pála tóku bæði til máls og lýstu ánægju sinni með samstarfið og hversu vel undirbúningur hefur gengið. Bragi fagnaði fjölbreytni í skólastarfi og auknu vali foreldra í Árborg. Margrét Pála tók undir orð Braga og lýsti gleði yfir þessari samvinnu þar sem gildi Hjallastefnunnar og Árborgar eru í miklum samhljómi.

Fyrri grein130 keppendur frá HSK á Unglingalandsmóti UMFÍ
Næsta grein„Frábært tækifæri til þess að sjá hvernig sveitalífið fer fram“