Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2025, og þriggja ára áætlun sveitarfélagsins, voru samþykktar að lokinni seinni umræðu í bæjarstjórn síðastliðinn miðvikudag.
Óverulegar breytingar urðu á áætluninni milli umræðna. Fjárhagsáætlanir einstaka málaflokka ýmist hækkuðu eða lækkuðu en stærsta breytingin var tengd leikskólanum Árbæ þar sem gert er ráð fyrir fjölgun barna haustið 2025. Einnig lækkuðu fjárfestingar í þriggja ára áætlun.
Eins og sunnlenska.is greindi frá eftir fyrri umræðu í bæjarstjórn verður álag á útsvarsprósentu afnumið en áfram verður innheimt hámarksútsvar, 14.97%
„Það er ánægjulegt að fjárhagsáætlun sé samþykkt með jákvæðri rekstrarniðurstöðu og sveitarfélagið sé að ná báðum lögbundnum viðmiðum eftirlitsnefndar strax árið 2025. Reksturinn verður traustari en það er mikilvægt að halda stefnu og leita áfram allra leiða til hagræðingar í rekstrinum sem um leið skapar svigrúm til lækkunar álaga á íbúa. Ég vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að vinnu við áætlunina. Við gleðjumst yfir betri stöðu en höldum fókus á verkefnin framundan,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar.
Sveitarfélagið Árborg hefur boðað til íbúafundar mánudaginn 9. desember kl. 17:00 í austurrými í Vallaskóla. Þar munu Bragi og Magnús Kristjánsson, ráðgjafi frá KPMG fara yfir stöðu sveitarfélagsins og kynna helstu áherslur í fjárhagsáætlun ásamt því að svara fyrirspurnum íbúa.