Sandhóll í Skaftárhreppi hlaut í síðustu viku Fjöreggið 2019 en Matvæla- og næringarfræðafélag Íslands veitir viðurkenninguna árlega til fyrirtækis sem þykir sýna lofsvert framtak á matvæla- og næringarsviði.
„Við erum afar ánægð með að hafa hlotið Fjöreggið og lítum fyrst og fremst á viðurkenninguna sem hvatningu til að halda áfram á sömu braut,“ segir Örn Karlsson, framkvæmdarstjóri Sandhóls, í samtali við sunnlenska.is.
Aðspurður segir Örn að þau hafi ekki átt von á þessari viðurkenningu.
„Við gerðum okkur litla von um að bera sigur úr býtum, sérstaklega eftir að við heyrðum að meðal tilnefndra væru fyrirtæki á borð við Krónuna og MS. Það kom því á óvart að fá viðurkenninguna, en á sama tíma erum við mjög glöð og þakklát fyrir þennan viðurkenningarvott. Að koma upp búskapi á Sandhóli og koma vörum í verslanir hefur ekki verið bein braut, ekki frekar en stofnun nokkurs nýs fyrirtækis, svo það er gott að fá stuðning á þeirri vegferð,“ segir Örn.
Virðing fyrir náttúrunni
„Við höfum stundað búskap á Sandhóli í Meðallandi frá árinu 2009, en áður var jörðin eyðibýli,“ segir Örn. Búskapurinn á Sandhóli hefur alltaf verið stundaður með virðingu fyrir náttúrunni.
„Þegar við settumst niður í upphafi til að marka stefnu Sandhóls var sjálfbær og vistæn ræktun ávallt leiðarljósið. Við höfum lagt áherslu á að nota engin óæskileg efni við ræktunina eins og sveppalyf, skordýraeitur, illgresiseyði eða annað slíkt, auk þess að fullnýta allt hráefni sem fellur til við vinnsluna. Það skiptir okkur verulegu máli að fólk geti treyst því að vörurnar frá okkur séu eins hreinar og kostur er á,“ segir Örn en á Sandhóli er stundaður blandaður búskapur þar sem ræktaðar ýmsar nytjajurtir eins og hafrar, bygg og repja. Einnig er þar nautgriparækt og nytjaskógrækt.
Fleiri afurðir væntanlegar
Að sögn Arnar stendur til að fjölga afurðum Sandhóls enn frekar. „Nokkur slík verkefni eru á teikniborðinu, meðal annars í samstarfi við önnur fyrirtæki, en mörg fyrirtæki hafa sett sig í samband við okkur og óskað eftir samstarfi. Vörurnar þurfa þá ekki endilega að vera framsettar undir merkjum Sandhóls,“ segir Örn en þrír starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu eins og er og gerir hann ráð fyrir því að þeim fjölgi á næstu misserum.
Örn segir það ekki vera á stefnuskránni að herja á erlendan markað. „Við sjáum fyrst fyrir okkur að ná góðum tökum á innanlandsmarkaði þó við útilokum ekkert þegar fram í sækir.“
„Við horfum björtum augum til framtíðarinnar og hlökkum til að kynna frekari vörur fyrir landsmönnum. Búið fer stækkandi og það eru spennandi tímar framundan,“ segir Örn að lokum.