Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti voru kallaðir út vegna glussaleka á Biskupstungnabraut milli Geysis og Gullfoss að kvöldi 16. júní síðastliðins.
Þar hafði glussaslanga gefið sig á bíl er notaður var við vegmerkingar með þeim afleiðingum að glussi fór á veginn á um eins kílómeters kafla. Mat slökkviliðsmanna á vettvangi var að umfang mengunarinnar væri of mikið miðað við þann búnað sem slökkviliðið ræður yfir og var því sértæk hreinsibifreið fengin í verkið.
Í tilkynningu frá Brunavörnum Árnessýslu segir að mikilvægt sé að hreinsa upp olíumengun sem þessa af vegum vegna umhverfissjónarmiða og vegna slysahættu þar sem vegir verða afar hálir við þessar aðstæður.