Á dögunum komu nemendur frá Cornell háskólanum í New York fylki í Bandaríkjunum í heimsókn til Landgræðslunnar í Gunnarsholti.
Ásamt því að skoða Sagnagarð, fræðslu- og kynningarsetur Landgræðslunnar, hlýddu þau á fyrirlestur um þýðingu landgræðslu og jarðvegsverndar með tilliti til matvælaöryggis. Einnig var kolefnisbinding með landgræðslu kynnt og tengsl hennar við skuldbindingar Íslands samkvæmt Rio sáttmálanum.
Gestirnir frá Cornell eru nemar í arkitektúr og eru þau komin mislangt í námi, sum eru að ljúka námi og vinna að lokaverkefni á meðan önnur vinna að Bachelor verkefnum. Heimsókn þeirra til Íslands var liður í verkefnavinnu og sáu Margrét Harðardóttir og Steve Crister hjá Studio Grand um skipulagningu dvalar og ferða á Íslandi.
Heimsóknir sem þessar eru ekki óalgengar hjá Landgræðslunni og eru bundnar vonir við að þeim fjölgi til muna með tilkomu Sagnagarðs.