Ólíklegt er að það verði af sameiningu sveitarfélaga í Árnessýslu á næstunni. Tvennt kemur til að sögn sveitarstjórnarmanna, áhugaleysi og góðæri hjá sveitarfélögum á Suðurlandi.
RÚV greinir frá þessu.
Könnun á kostum og göllum sameiningar sjö sveitarfélaga í Árnessýslu hófst síðasta haust. Það eru Árborg, Ölfus, Hveragerði, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur og Flóahreppur. Sameinað sveitarfélag yrði það sjötta fjölmennasta á landinu með ríflega fimmtán þúsund íbúa. Ráðgjafar voru fengnir til að kanna kosti og galla og sú vinna stendur enn.
Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar, segist fylgjandi auknu samstarfi sveitarfélaganna en það virðist ekki mikill almennur áhugi fyrir því.
„Ég er nú sameiningarsinni og sé ýmsa kosti við það að sveitarfélögin myndu sameinast. Þar er ég ekki að horfa til þess að það myndi sparast mikið, auðvitað myndi eitthvað sparast í yfirstjórn og slíku en einhvers staðar annars staðar myndi örugglega þurfa að bæta í þannig að ég held að í það minnsta fyrstu árin væri ekki verulegur sparnaður. En það sem við fengjum úr þessu væri stærri heild, við fengjum meiri slagkraft mögulega, hefðum þá líka meiri möguleika til að taka við verkefnum sem hafa verið að færast til sveitarfélaganna og þau eru núna að reka í svona samstarfssamningum eða byggðasamlögum,“ segir Ásta í samtali við RÚV.