Örtröð var við opnun grænmetismarkaðar Hjartar Benediktssonar í Hveragerði eftir hádegi í dag.
Það leit út fyrir að allt yrði uppselt á fyrsta hálftímanum en Hjörtur var á stöðugum hlaupum að sækja meiri söluvarning.
„Ég verð ávallt með nýja og ferska vöru sem ræktuð er í héraði. Nýtt grænmeti úr gróðurhúsum og nýupptekið útigrænmeti verður í boði um leið og það þroskast. Og hver veit nema bleikja og heimagerð hrossabjúgu fái að vera með,“ sagði Hjörtur í samtali við sunnlenska.is, ánægður með móttökurnar á fyrsta degi.
Markaðurinn sem er við leikhúsið í Hveragerði, við hliðina á Eden, opnaði í dag og verður opinn allar helgar fram á haust.