Góð sending frá Utangarðsmönnum

Bifhjólaklúbburinn Utangarðsmenn, ásamt fyrirtækjum og einstaklingum á Selfossi, afhenti í gær félagsþjónustu Árborgar matvöru og jólagjafir sem komið verður í hendur þeirra sem þurfa fyrir jólin.

Í ár munu 47 fjölskyldur og einstaklingar á Selfossi njóta góðs af þessu framtaki Utangarðsmanna og að sögn Baldurs Róbertssonar, forsprakka bifhjólaklúbbsins, er það fjölgun um fimm fjölskyldur frá því í fyrra. Anný Ingimarsdóttir frá félagsþjónustu Árborgar tók við sendingunni en sveitarfélagið kemur vörunum áfram í réttar hendur.

Auk Utangarðsmanna standa BR flutningar, Bílverk BÁ, Jeppasmiðjan á Ljónsstöðum, Bónus, Sjóvá, Vífilfell og Myllan að þessu verkefni, en einnig lögðu sex einstaklingar hönd á plóg og bifhjólaklúbburinn Postular lagði til nokkrar jólagjafir.

„Ég vil þakka þeim fyrirtækjum sem aðstoðuðu okkur í ár við að gera þetta svona veglegt,“ sagði Baldur í samtali við sunnlenska.is, en þetta er tólfta árið í röð sem hann stendur fyrir verkefni sem þessu.

Fyrri greinSnjókoma og versnandi skyggni síðdegis
Næsta greinÍSÍ gefur héraðsskjalasöfnunum afmælisbók