Ný myndbandaleiga, 800 Video, opnar á Selfossi í dag. Það ætti að gleðja kvikmyndaunnendur því engin myndbandaleiga hefur verið starfrækt í bænum í rúm tvö ár.
Það er Eiður Birgisson sem rekur nýju leiguna en eins og nafnið gefur til kynna verður leigan í sama húsnæði og 800 Bar í miðbæ Selfoss. Að sögn Eiðs er það ekki síst gert til þess að samnýta húsnæðið en barinn verður áfram opinn á kvöldin og um helgar.
Eiður hefur keypt lager Suðurlandsvídeó sem lokaði í lok árs 2011 en hann hyggst leggja sérstaka áherslu á VHS myndir enda séu þær að koma sterkar inn á nýjan leik.
„Það er ákveðin retro-stemmning í gangi, vínylplöturnar eru aftur orðnar vinsælar og fólk er mikið að leita að myndum á VHS spólum enda er ákveðinn sjarmi yfir myndgæðunum á þeim. Auk þess að leigja spólur þá verð ég einnig með vídeótækjaleigu þar sem til dæmis verður hægt að fá vídeótæki á góðu verði í helgarleigu og fylgja fimm spólur frítt með í þeim pakka. Framtíðin er í spólunum, þær eru að koma sterkar inn aftur,“ segir Eiður í samtali við sunnlenska.is. Hann er svo sannarlega á heimavelli í þessum geira enda hefur hann sjálfur mikla reynslu úr kvikmyndabransanum, bæði við gerð kvikmynda, tónlistarmyndbanda og sjónvarpsþátta.
„Það var reyndar mikið af DVD myndum og Blu-Ray myndum í lagernum hjá Suðurlandsvídeó og til þess að rýma til fyrir nýrri VHS myndum ætla ég að gefa stærstan hluta DVD myndanna í tilefni opnunarinnar og þar gildir að fyrstir koma fyrstir fá,“ segir Eiður sem verður með á þriðja hundrað VHS titla til að byrja með, bæði nýjar og gamlar myndir.
Auk þess að gefa DVD og Blu-Ray myndir mun fimmti hver viðskiptavinur á opnunardeginum fá glaðning með VHS-spólunni sinni, snakkpoka og kippu af gosi.
800 Video opnar kl. 14 í dag og verður opið til kl. 23:30 öll kvöld vikunnar.
UPPFÆRT KL. 22:54: 1. APRÍL!!!!