Sunnlendingar eiga fjóra fulltrúa á sviðinu í Telenor höllinni í Osló í kvöld þegar fyrra undankvöld í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fer fram.
Þar fer fremst í flokki söngdívan glaðværa Hera Björk frá Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi en í bakraddahópnum eru m.a. Selfyssingarnir Kristjana Stefánsdóttir, Pétur Örn Guðmundsson og Vestmannaeyingurinn Kristján Gíslason.
Í samtali við sunnlenska.is vildi Hera koma á framfæri hlýjum kveðjum frá Osló til Sunnlendinga og allra Íslendinga. „Góða skemmtun í kvöld,“ sagði Hera Björk að lokum og ljóst að landsmenn allir muni líma sig við sjónvarpsskjáinn kl. 19.
Hera Björk stígur síðust á stokk í kvöld með lagið Je Ne Sais Quoi. Undirbúningur hefur gengið eins og í sögu og atriðið er fullmótað en helstu veðbankar spá því að Ísland komist upp úr undanriðlinum. Sautján lög verða flutt og komast tíu lög áfram í úrslitakeppnina á laugardag.