Á dögunum var góðu ári í ferðaþjónustunni fagnað á Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands sem haldin var á Hótel Örk í Hveragerði.
Dagskrá hátíðarinnar var glæsileg þar sem fram komu Ari Eldjárn, Sigmundur G. Einarsson og kona hans Unnur Ólafsdóttir, auk þess heiðraði ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir gesti með nærveru sinni og ávarpaði hún gesti hátíðarinnar.
Þetta var fjórða Uppskeruhátíð Markaðsstofu Suðurlands og verður hún stærri og veglegri ár hvert.
Dagskráin hófst með því að gestum hátíðarinnar var boðið í kynningarferð um Hveragerði sem Ferðamálasamtök Hveragerðis skipulögðu. Á meðal þess sem gert var í kynningarferðinni var komið við í Hamarshöllinni, bragðað á hveraglöggi og sjávarréttasúpu hjá Frost og Funa, smakkað hverabakað rúgbrauð í Hveragarðinum, litið inn hjá Gistiheimilinu Frumskógum og komið við á Listasafni Árnesinga þar sem gestir gæddu sér á kræsingum frá Kjöt og Kúnst.
Að lokinni kynningarferð var svo sjálf uppskeruhátíðin í Hótel Örk. Markaðsstofa Suðurlands bauð gestum í fordrykk og svo var haldið til borðhalds. Létt var yfir gestum og stjórnaði Sigurður Sólmundarson hátíðinni í bland við glæsilega dagskrá kvöldsins. Uppskeruhátíðin heppnaðist mjög vel og skemmtu gestir sér fram eftir kvöldi við undirleik Hljómsveitarinnar PASS áður en hátíðinni lauk.