Sumarið sem nú er að líða telst til betri kornára á Suðurlandi. Að sögn Sigmars Aðalsteinssonar hjá Flóakorni ehf. eru gæði kornsins á Suðurlandi yfirleitt mjög mikil.
„Það er sérstaklega áberandi hve vel þroskað kornið er og þetta telst gott kornsumar svona yfir heildina litið,” segir Sigmar.
Hann sagði sums staðar hafi þurrkur sett strik í reikninginn og þá hefði uppskera í sendnu landi verið síðri. Gegnumsneitt fer þó sumarið í bækurnar sem gott kornsumar.
Sigmar sér um tæki og skurð hjá Flóakorni og vinnur korn á um 200 hekturum. Að sögn Sigmars er ekki mikil breyting á magni milli ára þó alltaf sé eitthvað um að nýir ræktendur reyni fyrir sér.