Nemendur Flóaskóla og Grunnskólans í Þorlákshöfn komu mjög vel út úr samræmdum prófum sem tekin voru á haustdögum.
Nemendur í 10. bekk í Flóaskóla eru með hæstu einkunn á landsvísu í íslensku og stærðfræði og næst hæstu einkunn í ensku. Árangurinn er ekki síst athyglisverður fyrir það að þetta er í fyrsta sinn sem kennsla fer fram í 10. bekk í Flóaskóla.
Skólar með tíu nemendur eða færri eru ekki teknir með inn í samanburðartölur og því kemst 7. bekkur Flóaskóla ekki á blað yfir landið en þess ber þó að geta að meðaltalseinkunnir í íslensku og stæðfræði í 7. bekk eru töluvert mikið yfir landsmeðaltali.
Í Grunnskólanum í Þorlákshöfn trónir 10. bekkur á toppnum yfir landið í ensku og er meðal fjögurra efstu í íslensku og stærðfræði. 7. bekkur í Þorlákshöfn er efstur á landsvísu í stærðfræði og er einnig mjög ofarlega í íslensku.