Góð mæting var á fyrsta félagsfund samtakanna Örugg búseta, síðastliðinn miðvikudag, en samtökin eru íbúasamtök fólks með búsetu í frístunda- eða heilsárshúsum í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Að sögn Heiðu Bjarkar Sturludóttur, formanns samtakanna, voru líflegar umræður á fundinum um réttindamál fólks til að fá að búa þar sem það sannarlega býr og vildu fundargestir að mannréttindi yrðu í hávegi höfð.
„Einnig voru ræddar neikvæðu hliðarnar á því að vera skráður sem „óstaðsettur í húsi“ og þar er af mörgu að taka. Öryggi þeirra sem skráðir eru sem „óstaðsettir í húsi“ er ekkert enda gerir þessi skráning þá ósýnilega og því hafa margir skráð sig í önnur sveitarfélög og greiða þangað sitt útsvar en staðreyndin er sú að langflestir eiga þessa einu eign og eiga ekki annað heimili á Íslandi,“ segir Heiða Björk. Auk hennar eru í stjórn félagsins þau Guðrún Margrét Njálsdóttir gjaldkeri og Davíð Karl Andrésson meðstjórnandi.
Á fundinn mættu um 50 manns, meginþorri þeirra er með sitt aðalheimili í frístundahúsi í GOGG og allmargir hafa búið þar um árabil. Tveir fulltrúar úr minnihluta sveitastjórnar mættu á fundinn, þær Ragnheiður Eggertsdóttir og Dagný Davíðsdóttir.
Heiða Björk segir nauðsynlegt að stofna samráðshóp með sveitarstjórn um lausn þessara mála en samtökin héldu fundi með báðum framboðum í hreppnum fyrir kosningar og að sögn Heiðu lýstu báðir framboðsflokkar vilja sínum að stofna samráðshóp.