„Góðir tímar framundan“

Siggi og Dagga, eigendur Litlu garðbúðarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Verslunin Litla garðbúðin á Selfossi fagnar í dag 5 ára afmæli. Í tilefni af afmælinu verður boðið upp á afmælisköku frá klukkan þrjú til fimm, auk þess sem það verður 20% afsláttur af öllum vörum frá fimmtudegi til laugardags, bæði í búðinni og vefversluninni.

Í Litlu garðbúðinni má finna fjölbreytt úrval af borðbúnaði, ásamt leikföngum, fræjum og ýmsu öðru fyrir garðyrkjuna.

„Það hefur verið stöðug aukning á þessum fimm árum en það var ansi lítið að gera fyrstu árin. Covid tíminn var auðvitað tvö ár af þessum fimm og það var bæði góður og slæmur tími, mjög miklar sveiflur og álag að standa í rekstri á þeim tímum og svo lagðist landinn í ferðalög til útlanda sem hafði ekki góð áhrif á verslun en núna er allt að færast í jafnvægi og góðir tímar framundan finnst mér,“ segir Dagrún Guðlaugsdóttir, eigandi Litlu garðbúðarinnar, í samtali við sunnlenska.is.

Dagrún segir að það hafi heilmikið breyst á þessum fimm árum sem verslunin hefur verið starfandi. „Bæði hefur vöruúrvalið aukist og svo höfum við sett upp og tekið niður veggi og svona almennar breytingar í takt við tíðarandann. Við höfum fært vörur og húsgögn þar sem þau fara betur að okkar mati. Ég er frekar sátt við búðina eins og hún er núna, allavega þangað til Siggi minn fær betri hugmyndir. Það er auðvitað alltaf hægt að breyta og bæta og við reynum að staðna ekki,“ segir Dagrún, sem rekur verslunina ásamt eiginmanni sínum, Sigurði Jónssyni.

Það kennir ýmissa grasa í Litlu garðbúðinni. Ljósmynd/Aðsend

„Miðað við viðskiptavini okkar fyrstu árin virtist vera að það byggju fleiri á Stokkseyri og Eyrarbakka heldur en á Selfossi en Selfyssingar eru sem betur fer smátt og smátt að uppgötva okkur, góðir hlutir gerast stundum hægt. Það koma samt ennþá í hverjum mánuði viðskiptavinir sem vissu ekki af úrvalinu hjá okkur og hafa jafnvel ekki kíkt í kjallarann síðan hér var hestavöruverslun og eru furðu lostnir yfir breytingunum. Mér finnst alltaf gaman að fá svoleiðis fólk í heimsókn og jafnvel heyra sögur um þá sem bjuggu hér.“

„Í upphafi voru aðallega ræktunarvörur frá Nelson Garden, borðbúnaður frá GreenGate, sælkeravörur frá The Spice Tree og ýmsir skrautmunir. Nokkru eftir að við opnuðum hér tókum við inn borðbúnaðurinn frá PIP Studio sem hefur verið mjög vinsæll og seinna fatnaðinn frá þeim sem er alveg einstakur. Svo bættust við barnavörur frá Rätt Start, Mumin og fleira og nýjasta viðbótin er dótahornið okkar þar sem finna má ýmis konar leikföng. Dótahornið er búið að fá aukið pláss og það höfum við áhuga á að efla en það fer auðvitað eftir efnum og aðstæðum eins og annað,“ en enginn aðdáandi múmínálfana ætti að láta vöruúrvalið í Litlu garðbúðina framhjá sér fara

Dagga og Siggi keyptu Sjafnarblóm haustið 2016 og sáu fljótt að það gengi ekki að skipta sér svona á tvo staði en þau voru áður með rekstur í Reykjavík. „Þannig að við lokuðum búðinni í Reykjavík veturinn 2017 og fluttum reksturinn sem við vorum með þar í kjallarann. Elín tók svo við rekstrinum á Sjafnarblómum síðasta haust, þannig að núna er þetta allt að verða viðráðanlegra og við getum einbeitt okkur meira að Litlu garðbúðinni.“

„Við búum reyndar ennþá í Mosfellsbæ og keyrum því á milli eins og svo margir gera, förum öfuga leið miðað við flesta en það er jú jafn langt í báðar áttir. Á morgnana keyrum við út vörur og snúumst í bænum og erum svo komin fyrir kl. 12 til að opna búðina. Við þökkum Sunnlendingum kærlega fyrir viðskiptin á síðastliðnum fimm árum og hlökkum til að fá sem flesta í heimsókn,“ segir Dagrún að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri grein„Komum hingað aftur fljótlega“
Næsta greinSé ekki eftir sekúndubroti sem ég varði í FSu